Þessi texti er svona skírskotun í þá þróun að allt á þessu landi er að
steypast í sama form til sjávar og sveita, það er lögboðin þróun og er
sjónum beint að Hellnum á Snæfellsnesi í þessu tilfelli.

Þorri samdi lagið sem er eitt af nýju lögunum okkar á þessum diski.

Keli.



Villtur

Litadýrðin er svo lúmsk upp við hlíð
og loftið oft virðist mér hreinna.
Hér drógu þeir kallarnir dallana á flot,
og drukknuðu yfirleitt seinna.

Fólkið át lúður og lopadýr súr
og lynti við drauga og álfa.
Drepandi bylurinn dundi á þök
dagana heila og hálfa.

Þar sem Drepplakolla í dysinni liggur,
drynur í klettum og gölturinn styggur
Bárður í lauginni buslar um nakinn,
ég er blautur og rifinn, villtur og hrakinn.

Rennandi bunan varð rammheilagt vé
sem rollurnar gengu í kringum,
dregnir til ómagar drottni til hróss
og drepnir og hýddir á þingum.

Þar sem Drepplakolla í dysinni liggur,
drynur í klettum og gölturinn styggur
Bárður í lauginni buslar um nakinn,
ég er blautur og rifinn, villtur og hrakinn.

Nú syngur í línunum sorglegan blús
og símanum áfram við þokum.
Margflokkað heimsent og markaðsett líf,
já malbikið sigrar að lokun.

Þar sem Drepplakolla í dysinni liggur,
drynur í klettum og gölturinn styggur
Bárður í lauginni buslar um nakinn,
ég er blautur og rifinn, villtur og hrakinn.

til baka