Jenný

Jenný hún vill ekki vera hér lengur,
vill ekki bíða í dag eða tvo.
Samt reyndi ég allt sem gerist og gengur,
gat engu ráðið og tapaði svo.

Jenný hún vill ekki vín eða steikur,
vill ekki pelsa, seðla og gull.
Ég veit henni finnst þetta lákúru leikur
og líklega er þetta endemis bull.

Jenný hún vill ekki vera í stríði,
vill ekki lengur berjast við allt.
Það koma aðrir við sögu, ekki til prýði,
ofbeldis grenið er skítugt og kalt.

Jenný hún vill ekki vita af mér meira,
vill ekki trúa á hefðbundna ást.
Svartnættið dimma engu mun eira,
við óvætti hugans er vonlaust að slást.

Jenný hún vill ekki að vakni upp draugar,
vill ekki muna eða kafa neitt djúpt.
Ég reyni að brotna ekki og bál fer um taugar
beiskur í hjarta þótt glottið sé ljúft.

Jenný hún vildi ekki vakna upp framar
í voluðum heimi og botnlausri kvöl.
Við erum peð fyrir guði presturinn stamar
og perluhvít kistan er grafin í möl.
Hérna á síðunni er hugmyndin að setja nokkra svona
afgangs eða óútgefna texta svona til gamans



Rétt er að taka fram að efni textanna er hreinn
skáldskapur og öll líkindi við raunverulegar
persónur er tilviljun ein.
Stirður dans

Þótt veturinn hopi er vindurinn kaldur
og vínið í staupinu er þrautreyndur galdur.
Það var matur og ljós, það var mjöður og kerti
en ég man ekki hvenær ég höndina snerti.

Ég veit ekki um það, er hún ennþá hans
hálfkaldur bjór, faðmlag og stirður dans.

Svo dýrleg er stúlkan með dularfullt glottið,
draumarnir vakna og ég gengst inn á plottið.
Það gleymast öll sár er gróa svo illa,
Ég verð glaður í korter og höfðinu dilla.

Við heiftarlegt rokkið ég hringsnýst í trans,
hálfkaldur bjór, faðmlag og stirður dans.

Kemur senn að því að kvöldið burt líður,
það klárast úr flöskum og valdhafinn bíður.
Ég stend bara og skil hvorki undir né yfir,
eitthvað er brotið en neistinn hann lifir.

Það hriktir í tilveru hornreka manns
við hálfkaldan bjór, faðmlag og stirðan dans.
Saltur Sjór

Mér líkað alltaf við saltann sjó,
sat oft í fjöru hvar ég bjó.
Í óblíðum faðmi ægirs dó,
aldan skipið í klettinn hjó.

Ég þoldi ekki kossinn við stóran stein,
straumarnir fela mín brotnu bein.
Hafrótið læknar öll mannleg mein
og ég morkna í gröf sem er vot og hrein.

Nú er mér gleymt hvaða nafn ég bar,
þó var nöturleg sorgin allstaðar.
Óhörnuð börn fengu eymdarfar,
og ekkjan af guði heimtar svar.

Samt hata ég ekki þann salta sjó,
sem að mig þó til dauða dró.
Máttarvald æðra svo mat og vó,
að mér væri hollast að sofa í ró.

Villtur

Litadýrðin er svo lúmsk upp við hlíð
og loftið oft virðist mér hreinna.
Hér drógu þeir kallarnir dallana á flot,
og drukknuðu yfirleitt seinna.

Fólkið át lúður og lopadýr súr
og lynti við drauga og álfa.
Drepandi bylurinn dundi á þök
dagana heila og hálfa.

Þar sem Drepplakolla í dysinni liggur,
drynur í klettum og gölturinn styggur
Bárður í lauginni buslar um nakinn,
ég er blautur og rifinn, villtur og hrakinn.

Rennandi bunan varð rammheilagt vé
sem rollurnar gengu í kringum,
dregnir til ómagar drottni til hróss
og drepnir og hýddir á þingum.

Nú syngur í línunum sorglegan blús
og símanum áfram við þokum.
Margflokkað heimsent og markaðsett líf,
já malbikið sigrar að lokun.

Þar sem Drepplakolla í dysinni liggur,
drynur í klettum og gölturinn styggur
Bárður í lauginni buslar um nakinn,
ég er blautur og rifinn, villtur og hrakinn.

MÓRALL.

Hún liggur hjá mér sofandi með ljósa hárið sítt,
loftið mettað svitalykt og vatnsrúmið svo hlítt.
Ég hefði ekki átt að lofa þér og leika annan mann,
lygin fellir svikarann og dauðadæmir hann.

Ég er mannleg hryggðamynd með brenndar flestar brýr,
bölvun mín er vhiskytár og sál í gaddavír.
Brosið mitt er eiturgott en aldrei það mér bregst,
ennþá falla konurnar ef ráðabruggið tekst.

Senn fer ég, læðist burt og loka á eftir mér.
Líklega er það hugleysi að bíða ekki eftir þér.
Þú ert kona allrabest, enginn af því spiyr,
og því vil ég gleyma þér sem öllum hinum fyrr.




Hamingjan

Hamingjan birtist í harðsoðnum eggjum,
hökkuðum rollum, pulsu og kók.
Lítill í hjarta og læðist með veggjum,
var laminn í skóla og pissaði í brók.

Hamingjan kemur í hlaupkenndum sósum,
handfylli af rófum, saft út á graut.
Það er dimmt niðri í vinnu, ég dansa ekki á rósum
djöflarnir hlæja og kalla mig naut.

Hamingjan leynist í heilsteiktum fiski
hákarli á pinna, kollu af bjór.
Stelpurnar flissa af stútfullum diski,
það stríða mér börnin og hlæja í kór.

Hamingjan dafnar í helling af pasta,
hrökkbrauði norsku, ískaldri mjólk.
Ég mjakast upp tröppur, mæðunni kasta,
meinlega glottir þetta kaldlynda fólk.

Hamingjan gerjast í hamflettum gæsum,
hringlaga snúðum, spræti og ís.
Það er einmanna sál er vindarnir væs´um
vonleysið stjórnar og dagurinn rís.
Caterpillar konungur.

Regnið fellur á móbrúna mölina,
myrkrið þrúgar, lengir dvölina.
Húsin gráleit og grútháttarleg,
gleðin skömmtuð í holóttan veg.
er við komum caterpillar og ég.

Ég reyndi að kynnast, þvældist um þvöguna.
Þegjandi óvild toppaði söguna.
Með augun brostinn og brennivínsleg,
á barinn slefað og veiðin er treg.
Við erum kaldir caterpillar og ég.

Seinna er grjóti ég hrúga upp í hauganna,
hugurinn glímir við brennivíns drauganna.
Lukkan virðist lömuð og treg,
lífsins brekka óendanleg,
svo við krjúpum caterpillar og ég.

Þrátt fyrir vindgang og vonlausar kellingar,
vaxandi ístru og nýlegar fellingar,
er öll mín framtíð svo útreiknanleg,
við áfram skríðum út glötunarveg
tvær kraftahetjur, caterpillar og ég.

Ég ætti að reiðast og ráðast að kofunum,
ryðjast og brjóta, moka upp stofunum.
sú uppreisn þætti svo ofurmannleg,
allir þegðu og litu minn veg,
við yrðum kóngar Caterpillar og ég!
Brennivínsárið dökka.

Það var gott ár fyrir gróður og fugla,
og grasið varð óvenju hátt.
Ég hlustaði á skrílinn hlægja og rugla,
hálfvitar skilja svo fátt.
Svo tæmi ég pitluna og á pöbbskrattann fer,
sem plokkar upp seðlana af mér.

Það var gott ár fyrir greiðviknar tæfur
sem gerðu hvað beðið var um.
Ég blindfullur káfaði brattur og kræfur,
bleytti í hjá gyltunum.
Ég vaknaði hóstandi, hellti í glas,
hlustaði á grátur og þras.

Það var gott ár fyrir gargandi löggur
sem gáfu mér allsengann sjéns.
Þær kölluðu: Óþverri, kengfulli skröggur!
Í klefann fór argur og tens.
Ég barði þá stundum og braut ef ég gat,
og brosandi í járnunum sat.

Það var gott ár fyrir glóandi hatur,
er ég gleymdi að koma mér heim.
Liðið það henti mér, ég hrasaði flatur,
og hreinlega fyrirgaf þeim.
Þau lokuðu dyrum, lýstu á mig frat
er ég laumaðist til þeirra í mat.

Það var gott ár, fullt af glötuðum helgum,
og geðveikin kippir fast í.
Það breytist víst fátt hjá brennivínssvelgjum,
við bölvum og lifum með því.
Ég ældi á milli átta og fimm,
inntakan þótti víst grimm.

Það var gott ár fyrir gegnsósa byttur
sem úr gröfinni höktu uppá vog.
Þaðan ég mætti svo þurrkaður tittur,
sem þvældi um mitt áfengisrog.
Ég bý einn og drepleiðist daufleikans kvöl,
djöfull! Mig langar í öl.
Tilbaka

Hafðu skoðun


mac